Kona að nafni Connie McLaughlin lenti heldur betur í skondnu atviki um síðustu helgi er hún fjallaði um leik í ensku úrvalsdeildinni.
McLaughlin var mætt á Stamford Bridge til að fjalla um leik Chelsea og Everton fyrir TNT Sports.
Um er að ræða landsþekkta sjónvarpskonu en hún varð fyrir því óláni að fá vatnsgusu í andlitið stuttu fyrir beina útsendingu.
McLaughlin þurfti að forða sér burt og í skjól en vökvunarkerfi vallarins fór af stað á óheppilegum tíma.
,,Versta martröð fréttakonunnar hefur loksins átt sér stað!“ skrifaði McLaughlin á meðal annars og birti mynd af sér rennandi blautri á hliðarlínunni.
Sparkspekingurinn Toni Duggan náði að grafa upp myndbandið sjálft sem er skemmtilegt og má sjá með því að smella hér.