Ruben Amorim, stjóri Manchester United, vildi lítið tjá sig um Viktor Gyokeres, framherja Sporting, á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Athletic Bilbao í Evrópudeildinni í kvöld.
Gyokeres hefur raðað inn mörkum fyrir Sporting og er líklegt að hann fari. Amorim starfaði með honum hjá portúgalska liðinu áður en hann hélt til Englands. Hann virðist þó ekki hafa nýtt sambönd sín til að reyna að lokka leikmanninn á Old Trafford.
„Ég hef ekkert rætt við hann,“ sagði Amorim við fréttamenn. Hann var svo spurður að því hvort það skipti máli að United myndi ná Meistaradeildarsæti til að geta fengið menn eins og Gyokeres.
Svo gæti farið að United nái Meistaradeildarsæti þrátt fyrir ömurlegt tímabil heima fyrir. Liðið er komið í undanúrslit Evrópudeildarinnar. Sigur í þeirri keppnir veitir aðgang að Meistaradeildinni.
„Leikmenn geta ekki komið til Manchester United bara til að spila í Meistaradeildinni. Við þurfum leikmenn sem vilja klæðast treyjunni, ekki þá sem vilja bara spila í ákveðinni keppni,“ sagði Amorim þá.