
Óvænt nafn er á lista West Ham yfir mögulegan næsta knattspyrnustjóra ef félagið ákveður að láta Nuno Espirito Santo taka pokann sinn.
West Ham rak Graham Potter í september eftir slaka byrjun á tímabilinu og var Nuno ráðinn, en hann hafði nýlega verið rekinn frá Nottingham Forest. Portúgalinn hefur ekki náð að snúa gengi Lundúnaliðsins við og aðeins unnið tvo af þrettán.

West Ham situr nú í fallsæti, fimm stigum frá öruggu sæti. Nuno vonast til að félagið geti styrkt sig í janúarglugganum, þar sem miðjumaður, varnarmaður og sóknarmaður eru á óskalistanum.
Pressan eykst þó á Nuno og samkvæmt Ben Jacobs er Slaven Bilic kominn á blað hjá stjórn félagsins. Króatinn stýrði West Ham með góðum árangri á árunum 2015–2017.
Bilic var einnig orðaður við endurkomu til West Ham í haust og er hann sagður áhugasamur um að snúa aftur í enska boltann.