

Cole Palmer má ekki byrja að hugsa um það að spila fyrir allra stærstu félög heims á þessum tímapunkti að sögn fyrrum franska landsliðsmannsins, Frank Leboeuf.
Leboeuf er sjálfur fyrrum leikmaður Chelsea þar sem Palmer er í dag en hann er mikilvægasti leikmaður enska félagsins.
Það væri ekki óvænt ef félög eins og Real Madrid myndu banka á dyrnar á næstu árum en Leboeuf hvetur þann enska til að halda sig í Lundúnum í bili þar sem honum líður vel.
,,Ef þú ert Cole Palmer, viltu spila fyrir Real Madrid? Hvar ætlarðu að spila? Þú ert með Jude Bellingham og marga aðra, þú þarft að passa þetta val og hugsa þig tvisvar um,“ sagði Leboeuf.
,,Já þú vilt spila fyrir besta félag heims og kannski er Real Madrid sá klúbbur en þú vilt líka ekki vera á bekknum, það er ekkert vit í því.“
,,Ferill Cole Palmer hefur staðið yfir í tvö ár og Manchester City vildi ekki halda honum – hann hefur komið öllum á óvart en slakaðu á. Þú spilar fyrir Chelsea og það getur hagnast þér verulega. Þú veist aldrei, kannski ertu hjá rétta félaginu.“