

Mario Pineida, leikmaður Barcelona Sporting Club og fyrrverandi landsliðsmaður Ekvador, hefur verið skotinn til bana í skotárás í Guayaquil. Pineida var 33 ára gamall. Félagið staðfesti andlátið á samfélagsmiðlum og lýsti yfir mikilli sorg.
„Barcelona Sporting Club tilkynnir með mikilli sorg að félagið hafi fengið staðfestingu á andláti leikmanns okkar, Mario Pineida, í kjölfar árásar á hann,“ segir í yfirlýsingu félagsins.
Samkvæmt fjölmiðlum í Ekvador var Pineida skotinn til bana fyrir utan verslun í norðurhluta Guayaquil. Lögreglan í Ekvador hefur staðfest að rannsókn standi yfir, en ekki gefið upp nánari upplýsingar. Talið er að tveir menn á mótorhjólum hafi staðið að árásinni. Pineida var sagður vera í fylgd móður sinnar og annarrar konu þegar skotárásin átti sér stað.
Pineida lék níu landsleiki fyrir Ekvador á árunum 2015 til 2021 og kom meðal annars við sögu í undankeppni HM 2018 og 2022. Hann hóf feril sinn hjá Independiente del Valle áður en hann gekk til liðs við Barcelona SC árið 2016 og vann með félaginu tvo landsmeistaratitla. Hann lék einnig um tíma með Fluminense í Brasilíu.
Ofbeldisalda tengd skipulagðri glæpastarfsemi hefur aukist í Guayaquil á síðustu mánuðum og nokkrir knattspyrnumenn hafa orðið fórnarlömb skotárása. Dauði Pineida hefur vakið mikla skelfingu í ekvadorskum knattspyrnuheimi og endurnýjað umræðu um vaxandi óöryggi í landinu.