

Georgina Rodríguez, unnusta Cristiano Ronaldo, hefur gert létt grín að risastórum demants-trúlofunarhring sem knattspyrnugoðsögnin gaf henni og sagt hann vera það minnsta sem hann gat boðið eftir langa bið.
Rodríguez, sem er 31 árs, greindi frá því í viðtali við Elle Spain að hún hefði beðið í nær áratug eftir bónorðinu. Parið kynntist fyrst árið 2016 og Ronaldo fór loks á skeljarnar í sumar. Þá sýndi Georgina glæsilegan hringinn fylgjendum sínum á samfélagsmiðlum, en þeir eru um 67 milljónir talsins.
„Hringurinn er stórkostlegur,“ sagði Georgina og bætti við að eftir tæplega tíu ár saman væri slíkt viðeigandi. Skartgripasérfræðingar hafa metið demantinn allt að 37 karata og virði hans talið nema allt að fimm milljónum dollara.
Ronaldo, sem er 40 ára, sagði nýverið í viðtali við Piers Morgan að Georgina hefði lengi dreymt um fallegan stein og hann hefði einfaldlega viljað finna það sem hún elskaði.
Parið er þegar farið að skipuleggja brúðkaupið og segir Georgina að það verði fremur lítið, um 100 manns verði boðið.