

Gary Martin, fyrrum framherji Vals og fleiri liða segir Ólaf Jóhannesson ekki segja allan sannleikann í nýrri ævisögu sinni sem kom út á dögunum.
Gary lék undir stjórn Ólafs hjá Val sumarið 2019 en þegar mótið var nýlega farið af stað vildi Ólafur losna við enska framherjann.
Gary var á góðum launapakka á Hlíðarenda en eftir örfáa leiki var honum meinað að mæta á æfingar liðsins. Ólafur fer yfir samskipti sín og Gary í bókinni.
Enski framherjinn segir Ólaf fara frjálslega með sannleikann í samskiptum þeirra. Gary lék með ÍA, KR, Víkingi, ÍBV, Selfoss, Val og Víkingi Ólafsvík hér á landi.
„Maður eins og Óli Jó,“ skrifar Gary á Instagram og setur hjarta með færslunni.
„Takk fyrir að nefna mig á nafn í bókinni. 75 prósent sannleikur og 25 prósent…..,“ skrifar Gary og ýjar að því að Ólafur sé ekki að segja allt satt.
Ólafur er einn besti þjálfari í sögu Íslands og var afar farsæll hjá Val og FH en einnig stýrði hann íslenska landsliðinu í fjögur ár.
