

Lionel Messi hefur fengið afar sjaldgæft úr í gjöf, sem metið er á nærri eina milljón punda, frá indverskum milljarðamæringi.
Argentínska stórstjarnan hlaut gjöfina í heimsókn sinni til Indlands, svokallaðri GOAT-ferð sinni um landið.
Messi, sem er 38 ára, kom til Suður-Asíuríkisins á laugardag og hóf fjögurra daga heimsókn í Kolkata. Í kjölfarið heimsótti hann meðal annars Hyderabad, Mumbai og Nýju Delí.
Í lok ferðarinnar var Messi boðinn í heimsókn í Vantara Global Wildlife Rescue and Conservation Centre í Jamnagar. Miðstöðin er í eigu Mukesh Ambani, eins ríkasta manns Indlands, og var það sonur hans, Anant Ambani, sem afhenti Messi hina glæsilegu gjöf.
Um er að ræða afar sjaldgæft Richard Mille úr, sem er metið á um 900 þúsund pund. Úrið er af gerðinni RM 003-V2 GMT Tourbillon ‘Asia Edition’ og eru aðeins 12 slík framleidd í heiminum. Það er með svörtum koltrefjahulstri og svokallaðri „skeleton“ skífu.
Messi sást bera úrið á myndum úr heimsókninni, sem bendir til þess að hann hafi tekið við þessari dýru og einstöku gjöf.