

Manchester United og Roma eru langt frá því að vera sammála um verðmat á Joshua Zirkzee, samkvæmt ítalska miðlinum Corriere dello Sport.
Hollenski framherjinn, sem er 24 ára gamall, er á óskalista Roma, en viðræður félaganna ganga illa þar sem United krefst um 35 milljóna punda fyrir leikmanninn.
Ensku félaginu er jafnframt lítt umhugað um að samþykkja lánstilboð og vill frekar selja Zirkzee alfarið ef til félagaskipta kemur.
Roma er sagt vilja fá leikmanninn á láni, mögulega með kauprétt, en sú lausn fellur ekki vel í kramið hjá forráðamönnum Manchester United. Þeir telja Zirkzee vera verðmætan leikmann og vilja fá umtalsverðar tekjur ef hann fer frá Old Trafford.
Ólík sjónarmið félaganna gera það að verkum að samningar virðast fjarlægir á þessari stundu, og óvíst er hvort mál Zirkzee leysist á janúarglugganum nema annað hvort lið gefi eftir í afstöðu sinni.