

Gabriel Jesus er mættur aftur á æfingasvæði Arsenal, tíu mánuðum eftir að hann sleit krossband í vinstri hné.
Brasilíski framherjinn gekkst undir aðgerðir og stranga endurhæfingu eftir að hafa verið borinn af velli í leik gegn Manchester United í janúar.
Meiðslin komu á mjög óheppilegum tíma fyrir Jesus, sem þá var í frábæru formi með sex mörk í sjö leikjum. Fjarvera hans þvingaði Mikel Arteta til að styrkja sóknarlínuna og var Viktor Gyökeres keyptur í sumar til að bæta breiddina fram á við.
Gyökeres meiddist hins vegar um síðustu helgi gegn Burnley og því gæti endurkoma Jesus reynst afar mikilvæg fyrir Arsenal í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn.
Myndbönd frá æfingasvæði félagsins sýna 28 ára Jesus brosandi þegar hann stígur út á grasvöllinn í London Colney, undir vakandi augum Arteta.
Stuðningsmenn Arsenal vona nú að hann geti fljótlega snúið aftur inn á leikvöllinn.
Back in the mix 🇧🇷
Great to see you out there again, Gabby ❤️ pic.twitter.com/TNG9FVx6BD
— Arsenal (@Arsenal) November 6, 2025