

Vladimir Coufal, fyrrum leikmaður West Ham, hefur opnað sig um stuttan fund sem batt enda á dvöl hans hjá félaginu og segir að hann sé enn ekki búinn að jafna sig yfir meðferðinni.
Í viðtali við The Athletic lýsir 33 ára gamli varnarmaðurinn því þegar þáverandi stjóri liðsins, Graham Potter, kallaði hann á fund og tilkynnti honum í 30 sekúndna samtali að samningur hans yrði ekki framlengdur. Coufal, sem hélt upphaflega að fundurinn sneri að því hvort hann myndi byrja gegn Manchester United á Old Trafford, varð orðlaus þegar tilkynningin kom.
„Potter sagði mér einfaldlega að félagið myndi ekki framlengja samninginn. Ég spurði af hverju og fékk bara að vita að þetta væri ákvörðun félagsins. Fimm ár hjá þeim og þetta tók 30 sekúndur,“ segir Coufal.
„Að fara heim og segja eiginkonu minni og börnunum frá þessu var erfiðast. Við grétum öll,“ segir hann. Sonur hans, níu ára, hafði þá nýlega skrifað undir hjá akademíu West Ham og tók fréttunum sérstaklega illa.
Coufal, sem nú leikur með Hoffenheim í Þýskalandi, segir enn sárara að skömmu áður hafi Fulham lagt fram tilboð í honum og boðið honum að vera áfram í London.
„Ég er enn ekki búinn að jafna mig,“ segir Tékkinn.