

Halldór Árnason, fyrrum þjálfari Breiðabliks, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Halldór er án starfs eftir að hann var látinn fara frá Breiðabliki í haust, aðeins ári eftir að hann gerði liðið að Íslandsmeisturum. Honum liggur ekki á að komast í nýtt starf.
„Ég hef vaknað á hverjum degi í sex ár með það í huga hvernig ég get hjálpað Breiðabliki að verða betri félag og meistaraflokki karla að verða betra lið. Ég hef auðvitað sinnt fjölskyldunni en annað setið á hakanum.
Ég er ótrúlega stoltur af þessum tíma en ég ætla að nýta tímann í að fara í smá sjálfsvinnu og gera hluti sem ég hef ekki haft tíma í. Ég ætla svolítið að njóta þess og svo kemur í ljós hvað verður,“ sagði Halldór, sem ætlar þó auðvitað að snúa aftur á hliðarlínuna.
„Það koma auðvitað dagar þar sem ég er með fullan haus af hugmyndum fyrir æfingar sem mig langar rosalega með út á völl eða inn í klefa. Það kemur bara að því og þá er betra að vera ferskur þegar þar að kemur.“
Fyrir helgi var Halldór orðaður við aðstoðarþjálfarastarfið hjá KR í hlaðvarpinu Dr. Football. Hann var spurður út í þann möguleika í þættinum, en þess má geta að þá höfðu þessar sögusagnir ekki farið á flug.
„Akkúrat núna ætla ég að njóta þess að vera frjáls í hausnum. Það hafa komið símtöl. Það sem mér fannst heiðarlegast við þá sem hringdu og sjálfa mig var að segja að ég ætlaði að taka smá frí. Mér líður enn þá þannig en svo kemur örugglega sá dagur að ég vil fara að gera eitthvað en það er ekki í dag og ekki á morgun.“
Umræðan í heild er í spilaranum.