
Vinicius Júnior hefur samkvæmt The Athletic tilkynnt forráðamönnum Real Madrid að hann ætli ekki að ræða nýjan samning við félagið á meðan samband hans við stjórann Xabi Alonso er jafn stirt og raun ber vitni.
Brasilíumaðurinn er samningsbundinn til 2027, en hafa hann og Real Madrid ekki komist nærri samkomulagi um framlengingu. Hefur hann til að mynda verið reglulega orðaður við Sádi-Arabíu.
Vinicius er sagður einn af fimm leikmönnum í hópnum sem eru ósáttir við aðferðir Alonso, sem tók við liðinu síðastliðið sumar af Carlo Ancelotti. Það eru einnig Jude Bellingham, Fede Valverde, Rodrygo og Endrick.
Ósætti Vinicius og Alonso komst í hámæli eftir El Clasico viðureignina í haust þegar Alonso tók Vinicius útaf í síðari hálfleik. Brasilíumaðurinn trylltist þá.
Mikið hefur verið fjallað um ósætti leikmanna við Alonso undanfarið, sér í lagi eftir dapurt gengi í síðustu leikjum.