
Samkvæmt Sport á Spáni lét Lionel Messi í ljós vilja sinn til að snúa aftur til Barcelona í janúar 2023, þegar hann hafði samband við fyrrum liðsfélaga sinn og þáverandi stjóra liðsins, Xavi. Þá var hann á mála hjá Paris Saint-Germian en var að verða samningslaus um sumarið.
Xavi og Messi héldu góðu sambandi og voru sammála um að endurkoma Argentínumannsins yrði frábær fyrir lið Barcelona á þeim tíma. Þeir töluðu reglulega saman næstu mánuði til að reyna að gera heimkomu Messi að veruleika.
Xavi ræddi einnig við föður leikmannsins, Jorge Messi, og lét forsetann Joan Laporta vita. Matheu Alemany, yfirmaður knattspyrnumála, átti að hafa fullyrt við Xavi að La Liga hefði gefið grænt ljós á félagaskiptin. Barcelona útbjó meira að segja tveggja ára samning sem Messi ætlaði að skrifa undir þegar hann yrði samningslaus sumarið 2023.
En í apríl kom höggið. Jorge Messi hringdi í Xavi með slæmar fréttir. „Þeir segja mér að þetta verði ekki. La Liga samþykkir þetta ekki.“
Endurkoma Messi til Barcelona féll þar með um sjálfa sig og Argentínumaðurinn gekk síðar til liðs við Inter Miami, þar sem hann er nú.