
Jamie Carragher, goðsögn Liverpool og sérfræðingur hjá Sky Sports, hefur beðist afsökunar á mati sínu á Eberechi Eze í sumar eftir frammistöðu hans þegar Arsenal vann sannfærandi 4–1 sigur á Tottenham.
Leandro Trossard kom Arsenal yfir á 36. mínútu áður en Eze stal senunni með þrennu. Richarlison minnkaði muninn með marki frá miðju en sigur Arsenal var þægilegur og liðið er með sex stiga forskot á topp ensku úrvalsdeildarinnar.
Carragher viðurkenndi í umfjöllun eftir leik að hann hefði vanmetið Eze þegar Arsenal fékk hann frá Crystal Palace í sumar. „Ég hélt fyrst að þetta væri bara til að auka breiddina,“ sagði hann.
„Svo setur hann þrennu núna. Afsökunarbeiðni frá mér, ég vanmat mikilvægi hans,“ sagði Carragher enn fremur.