
Barcelona fær nú talsverða gagnrýni frá eigin stuðningsmönnum eftir að félagið bauð fyrrverandi þýska landsliðsmanninum Jerome Boateng á æfingasvæði sitt.
Boateng, sem er 37 ára gamall , lagði skóna á hilluna í september eftir stutt stopp hjá LASK í Austurríki. Hann hafði nýlega átt í viðræðum við Bayern Munchen um stutt að fara í stutt þjálfaranám, en dró sig úr því verkefni eftir harða mótstöðu stuðningsmanna.
Bayern gaf þá út yfirlýsingu þar sem sagði að Boateng vildi ekki að félagið yrði fyrir skaða vegna umræðu um persónu hans.
Áður hafði verið hafin undirskriftasöfnun undir fyrirsögninni: „Setjum mörk gegn ofbeldi gegn konum: Jerome Boateng má ekki snúa aftur til Bayern“, sem fékk þúsundir undirskrifta.
Nú um mánuði síðar birtust svo myndir og myndbrot af Boateng á æfingavellinum hjá Barcelona þar sem hann heilsaði upp á fyrrum félaga sína, Robert Lewandowski og Hansi Flick. Félagið sjálft deildi 16 sekúndna myndbandi með textanum: „Velkominn á Ciutat Esportiva, Jerome Boateng!“
Samkvæmt miðlinum Sport mun Boateng nota aðstöðuna í nokkra daga til að halda sér í formi. En ákvörðunin hefur vakið mikla gremju meðal stuðningsmanna Barca sem benda á sakamál Boateng undanfarin ár.
Í september 2021 var Boateng fundinn sekur um árás á fyrrverandi sambýliskonu sína og fékk þá 1,8 milljóna evra sekt. Í framhaldi af áfrýjun og nýrri málsmeðferð var hann í júlí 2024 dæmdur fyrir líkamsárás og fékk 200 þúsund evra sekt og áminningu. Dómarinn fyrirskipaði einnig að hann greiddi 100 þúsund evrur til góðgerðarmála.