

Knattspyrnudeild ÍBV og knattspyrnudeild HK hafa náð samkomulagi um að Eiður Atli Rúnarsson verði á ný leikmaður ÍBV. Eiður lék með ÍBV á láni árið 2024 þegar liðið tryggði sér sæti í Bestu deild karla með góðu tímabili í Lengjudeildinni.
Eiður sem er 23 ára varnarmaður lék með HK í Lengjudeildinni í ár en samtals á hann 52 leiki í þeirri deild, hann á 17 leiki í Bestu deildinni sem hann lék með HK árið 2023.
„Eiður er flottur karakter og góður leikmaður sem getur leyst flestar stöður varnarlega og miðsvæðis. Hann skrifar undir þriggja ára samning við knattspyrnudeildina. Knattspyrnuráð og þjálfarar vilja bjóða Eið velkominn til félagsins og hlakka til samstarfsins við hann,“ segir á vef ÍBV.