
Joan Laporta, forseti Barcelona, segir að engin raunhæf leið sé fyrir Lionel Messi að snúa aftur til félagsins sem leikmaður.
Hann undirstrikaði þetta í nýju viðtali, þrátt fyrir að hafa í raun útilokað endurkomu Argentínumannsins á dögunum einnig.
Síðan hefur áfram verið fjallað um hugsanlega endurkomu Messi, sér í lagi eftir að hann heimsótti nýjan og endurbættan heimavöll Barcelona.
„Endurkoma Messi sem leikmanns er ekki raunhæf. Hann er með samning hjá Inter Miami eins og staðan er núna,“ segir Laporta.
„Það er flókið og ef þú lifir í fortíðinni kemstu varla áfram,“ bætti hann við, ómyrkur í máli.
Messi hefur opnað sig um að hann hefði viljað kveðja Börsunga öðruvísi. Félagið gat ekki endursamið við hann vegna fjárhagskragga og fór hann því til Paris Saint-Germain 2021.