

Félögin í ensku úrvalsdeildinni hafa greitt atkvæði gegn umdeildum hugmyndum um launaþak, en samþykktu á sama tíma innleiðingu nýrra fjármálareglna sem taka við af Profit & Sustainability Rules (PSR) frá og með næsta tímabili.
Tillagan um svokallað „anchoring“, sem hefði takmarkað útgjöld hvers liðs við fimmfaldan tekjustofn liðsins sem endar neðst í deildinni, fékk aðeins sjö atkvæði. Tólf félög greiddu atkvæði gegn og eitt sat hjá. Til að breyta reglum deildarinnar þarf 14 atkvæði.
Tillagan mætti mikilli gagnrýni, meðal annars frá leikmannasamtökunum PFA og þremur stærstu umboðsskrifstofum Evrópu, sem hótuðu málsókn ef hún yrði samþykkt.
Hins vegar samþykktu félögin nýtt reglukerfi sem tekur gildi 2026–27: Squad Cost Ratio (SCR) og Systematic Resilience Rules (SSR). SCR var samþykkt með meirihluta atkvæða og SSR fékk einróma stuðning.
Í stað PSR-reglanna, sem leyfa að hámarki 105 milljóna punda tap á þremur árum, munu Squad Cost Ratio (SCR) og Systematic Resilience Rules (SSR) taka við. SCR mun takmarka útgjöld á leikmannahóp við 85% af tekjum og hagnaði/tapi af leikmannasölum, með möguleika á 30% viðbótarheimild.
Deildin segir að nýja kerfið sé nær því sem UEFA notar og muni færa meiri gagnsæi, bætt eftirlit og skýrari reglur. SSR mun meta skammtíma- og langtímafjárhagsstöðu félaga til að tryggja stöðugleika og rekstrarhæfi.