

Haití tryggði sér í vikunni sæti á HM á næsta ári í annað skiptið í sögunni, eftir að hafa unnið riðil sem innihélt meðal annars Hondúras, Kosta Ríka og Níkaragva.
En þrátt fyrir sögulegan árangur gætu stuðningsmenn liðsins orðið af því að fylgja því til Bandaríkjanna vegna ferðabanns sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, setti fyrr á árinu.
Í júní undirritaði Trump tilskipun sem bannaði ríkisborgurum tólf landa að ferðast til Bandaríkjanna „til að vernda þjóðaröryggi Bandaríkjanna og hagsmuni íbúa þeirra“.
Haití var á þessum lista og því er bæði innflytjendum og ferðamönnum frá landinu óheimilt að koma inn í landið.
Haití hefur glímt við mikla ólgu síðan forsetinn Jovenel Moïse var myrtur árið 2021. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum eru glæpagengi nú með yfirráð yfir stórum hlutum höfuðborgarinnar Port-au-Prince og ferðamönnum er eindregið ráðlagt að fara ekki þangað vegna mannráns, glæpa og óstöðugleika.