

Fífan, knattspyrnuhöll Breiðabliks hefur verið lokuð undanfarnar vikur en þar hafa verið miklar framkvæmdir í gangi.
Félagið greinir frá því að tafir verði á opnun en nú sé stefnt að því að opna höllina á nýjan leik í byrjun desember.
Búið er að leggja nýtt gervigras á völlinn en þar er farið nýja leið.
„Gervigrasið er komið á, en eftir er að ganga frá veggjum og leggja tartan-brautina hringinn um völlinn. Við erum spennt fyrir nýja vellinum en hann er öðruvísi en vaninn hefur verið hér á Íslandi. Ekkert fylliefni er í grasinu (gúmmí) og líkir því meira eftir náttúrulegu grasi, sem og að loftgæði fyrir iðkendur Breiðabliks verða vonandi talsvert betri inni í Fífunni. Völlurinn er sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi og mætir einnig hærri umhverfisstöðlum svo eitthvað sé nefnt,“ segir á vef Breiðabliks.
Venjan hefur verið að hafa gúmmí í svona völlum en nú fer Breiðablik nýja leið, eitthvað sem fróðlegt verður að fylgjast með hvernig heppnast.