Amir Mehica hefur verið ráðinn í stöðu markmannsþjálfara A-landsliðs kvenna. Áður hafði KSÍ tilkynnt um ráðningu Ólafs Helga Kristjánssonar sem aðstoðarþjálfara og með ráðningu Amirs hefur nú verið fyllt í lausar stöður í þjálfarateyminu.
Bæði Ólafur og Amir koma frá Þrótti og mun sá síðarnefndi halda starfinu áfram þar samhliða stöðunni hjá landsliðinu.
Þorsteinn Halldórsson er sem kunnugt er aðalþjálfari liðsins og Gunnhildur Yrsa er þrekþjálfari.
Amir er reynslumikill þjálfari sem er með UEFA A gráðu í markmannsþjálfun. Hann þjálfaði markverði hjá Aftureldingu um nokkurra ára skeið, auk þess að hafa verið markmannsþjálfari í yngri landsliðum hjá KSÍ síðustu ár.