Stuðningsmenn Chelsea hafa sett fram óvenjulega samsæriskenningu til að skýra af hverju framherjinn Marc Guiu hefur ekki fengið mínútur með liðinu eftir endurkomu sína.
Spánverjinn gekk til liðs við Sunderland á láni í byrjun ágúst og skoraði eitt mark í þremur leikjum, það kom gegn Huddersfield í deildarbikarnum. Chelsea kallaði hann óvænt til baka 31. ágúst, aðeins 25 dögum eftir að hann fór frá félaginu, eftir að Liam Delap meiddist og Nicolas Jackson var við það að ganga í raðir Bayern München.
Þrátt fyrir þetta hefur Guiu ekki spilað mínútu síðan hann kom til baka og hefur setið á bekknum í fjórum leikjum í röð.
Það vakti athygli þegar Enzo Maresca kaus að stilla Tyrique George í fremstu víglínu gegn Benfica í Meistaradeildinni. George, sem var við það að ganga til liðs við Fulham fyrir 22 milljónir punda á lokadegi gluggans, var valinn fram yfir Guiu sem sat allan leikinn á bekknum. Joao Pedro kom síðar inn á fyrir George en var rekinn af velli í lokin.
Ýmsir stuðningsmenn á samfélagsmiðlum hafa nú velt upp kenningu um að Chelsea undirbúi nú þegar skiptidíl í janúar. Þar myndi Guiu ganga í raðir Strasbourg, sem er einnig í eigu BlueCo, sem liður í því að flýta komu Emanuel Emegha, sem Chelsea hefur þegar samið við um að fá næsta sumar.
Ef Guiu spilar leik fyrir Chelsea er ljóst að hann getur ekki skipt um félag í janúar.