Borgarráð Mílanó hefur samþykkt sölu á lóð leikvangsins San Siro til AC Milan og Inter, sem hyggjast byggja nýjan heimavöll á henni.
Samþykktin kom eftir langa umræðu í ráðinu sem stóð fram á nótt. Atkvæðagreiðslan fór fram klukkan 03:45 að staðartíma og var niðurstaðan 24 atkvæði með og 20 á móti. Sala svæðisins nemur rúmum 197 milljónum evra og markmiðið er að nýr leikvangur verði tilbúinn fyrir EM 2032.
„AC Milan og FC Internazionale lýsa ánægju sinni með samþykkt borgarráðsins á sölu San Siro og nærliggjandi svæðis. Þetta er sögulegt og stórt skref fyrir framtíð félaganna og borgarinnar. Nú horfum við með trausti og ábyrgð til næstu skrefa í ferlinu sem mun leiða til byggingar nýs leikvangs sem uppfyllir hæstu alþjóðlegu kröfur, heimsleikvangs sem verður nýtt tákn borgarinnar og knattspyrnuáhugamanna um allan heim,“ segir í yfirlýsingu félaganna.
Heildarfjárfesting félaganna er áætluð um 1,2 milljarðar evra. Auk nýs leikvangs verður byggt upp verslunarsvæði, söfn, hótel og afþreyingarsvæði fyrir stuðningsmenn. Verkefnið er skipulagt í fimm svæði og er vonast til að það skili 3,1 milljarði evra í efnahagslegum ávinningi og rúmlega 16 þúsund störfum fyrir árið 2035. Arkitektastofurnar Foster & Partners og Manica leiða verkið.
Bygging nýja leikvangsins kallar á niðurrif mest alls San Siro, eða Stadio Giuseppe Meazza, eins og hann er nú. Um 91 prósent af vellinum fer, þar á meðal fyrsta og þriðja stúkan ásamt hluta annarrar. Hlutar sem verða eftir verða nýttir sem almenningsgarður og gönguleiðir.
Milan og Inter hafa unnið í nærri áratug að því að fá eigið heimavöll og samþykki borgarráðsins færir félögin nær því markmiði.