Yfirmenn hjá Barcelona hafa látið hafa eftir sér að þeir séu ánægðir með Marcus Rashford og opnir fyrir því að festa kaup á honum eftir lánssamning hans við félagið, þrátt fyrir að hann hafi nýlega verið settur út úr liðinu vegna agabrots.
Rashford, sem kom til Katalóníu á lánssamningi frá Manchester United í sumar, hefur byrjað vel á Spáni og skorað tvö mörk ásamt því að leggja upp fjögur til viðbótar.
Fyrstu mörk hans fyrir félagið komu í leik gegn Newcastle á St. James’ Park fyrir tveimur vikum, þar sem hann vakti strax mikla athygli meðal stuðningsmanna Barcelona.
Skömmu síðar var hinn 27 ára gamli sóknarmaður þó felldur úr leikmannahópnum gegn Getafe, eftir að hafa mætt of seint á liðsfund.
Atvikið vakti gagnrýni frá fyrrverandi leikmönnum eins og Alan Shearer, sem sagði hegðunina geta kostað Rashford sæti sitt hjá Barcelona.
Yfirmaður knattspyrnumála hjá Barcelona, Deco, hefur þó staðfest í samtali við Mundo Deportivo að félagið sé sátt við framlag Rashford.
„Við erum ánægð með hann. Hann kom til okkar á einföldum lánssamningi og ef við viljum halda honum, þá höfum við kauprétt,“ sagði Deco.
„Það er of snemmt að ræða framtíðina, en hann hefur staðið sig vel. Það er það mikilvægasta.“