Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands valdi landsliðshóp sinn í dag fyrir leiki gegn Úkraínu og Frakklandi í undankeppni HM. Leikið verður á Laugardalsvelli og fyrri leikurinn fer fram á föstudag í næstu viku.
Eitt af því sem vakti hvað mesta athygli í hópnum er sú staðreynd að Jóhann Berg Guðmundsson var ekki valinn. Arnar var spurður út í það á fréttamannafundi í dag.
Jóhann var ekki með í síðasta verkefni en hann hafði þá verið meiddur, hann hefur hins vegar spilað síðustu leiki með liði sínu í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Meira:
Áhugaverður nýr landsliðshópur Arnars: Aron Einar með – Jóhann Berg og Gylfi úti í kuldanum
„Ég held að það sé augljóst að síðasti gluggi fór, hópurinn sem var á þeirri vakt stóð sig vel. Við reyndum að hreyfa sem minnst við hópnum, það eru tvær breytingar. Þeir leikmenn sem eru að spila í hans stöðu eru framar en Jóhann,“ sagði Arnar Gunnlaugsson.
Arnar var þá spurður að því hvernig Jóhann sem hefur spilað 99 landsleiki fyrir Ísland hefði tekið þessum tíðindum. „Ég tilkynnti honum þetta ekki.“
Aron Einar Gunnarsson og Andri Fannar Baldursson koma inn í hópinn fyrir Hjört Hermannsson og Willum Þór Willumsson sem er meiddur.
„Hjörtur kom inn fyrir Aron í síðasta gluggi, ég vil hrósa honum mikið. Hann kom inn af fagmennsku á lokametrunum og það var súrt að skilja hann eftir, heill Aron er mjög mikilvægur fyrir okkur. Willum er að spila sem tía hjá sínu liði, við viljum hafa hann sem djúpan miðjumann. Hann er ekki með og Andri Fannar kemur inn.“