Gary Neville, fyrrum fyrirliði Manchester United og nú sparkspekingur, sparaði ekki stóru orðin eftir 3-1 tap Rauðu djöflanna á útivelli gegn Brentford um helgina. Neville telur að Ruben Amorim, sem tók við liðinu síðastliðið haust af Erik ten Hag, sé að gera alvarleg mistök í liðsuppstillingum og skiptingum sínum.
Brentford komst í 2-0 í fyrri hálfleik með tveimur mörkum frá Igor Thiago. Benjamin Sesko, sem kom til United frá RB Leipzig í sumar, minnkaði muninn en Bruno Fernandes klúðraði vítaspyrnu á 71. mínútu. Mathias Jensen innsiglaði sigur heimamanna með marki seint í leiknum þar sem markvörður United, Altay Bayindir, gerði mistök.
United hefur nú aðeins unnið tvo af fyrstu sex leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og situr í 14. sæti með sjö stig. Eftir leikinn hafa ósáttar raddir á meðal stuðningsmanna farið vaxandi, ekki síst vegna þess að Amorim heldur fast í 3-4-3 leikkerfi sitt þrátt fyrir slæm úrslit.
Neville gagnrýnir þetta einnig. „Við dáumst að stjórum sem sýna þrautseigju og halda í sitt plan. En þegar Mason Mount endar sem vinstri vængbakvörður, þá líturðu einfaldlega illa út,“ sagði hann meðal annars.
„Frammistaðan og úrslitin eru einfaldlega óásættanleg. Ég er virkilega áhyggjufullur. Ég ætla ekki að kalla eftir því að Amorim verði rekinn, en stjórn félagsins hlýtur að vilja sjá viðsnúning.“