Valur fór langleiðina með að kveðja toppbaráttu Bestu deildar karla er liðið tapaði 2-0 gegn Fram í gær. Arnar Sveinn Geirsson, fyrrum leikmaður liðsins, telur að skipta þurfi um þjálfara eftir tímabil.
Valur hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu fjórum leikjum. Liðið er fjórum stigum á eftir toppliði Víkings og hefur einnig spilað leik meira. Val gekk vel lengi vel framan af móti en undanfarið hefur allt hrunið. Margir klína því á meiðsli Patrick Pedersen og Frederik Schram, sem komu í kjölfar þess að miðjumaðurinn Tómas Bent fór á miðju tímabili.
„Mér finnst mikil einföldun að segja þetta bara tengjast því að Tómas Bent hafi farið. Þetta segir mér það að undir niðri var bara meðal-fótboltalið. Þetta er búið að vera bitlaust og mér finnst eins og Túfa þori ekki að vera þjálfari Vals,“ segir Arnar Sveinn í Dr. Football.
Hann útskýrði sitt mál og talaði til dæmis um upplegg Vals í 1-0 tapi gegn Vestra í bikarúrslitunum fyrr í sumar.
„Hann þorir ekki að taka erfiðar ákvarðanir. Við getum talað um bikarúrslitaleikinn, liðsuppstillingin öskrar: Við ætlum að vera passívir. Á móti Vestra, þar sem þú átt að vera miklu betra liðið. Breiðablik í síðasta leik, 4-1 tap á útivelli gegn ÍBV, jafnteflið við ÍA. Mér finnst þetta ítrekað lélegt,“ segir hann og enn fremur að hann sjái ekki aðra leið en að skipta um þjálfara.