Sævar Atli Magnússon landsliðsmaður segir ljóst að miklar framfarir hafi orðið á íslenska liðinu frá því Arnar Gunnlaugsson tók við sem þjálfari.
Sævar fór um víðan völl í Íþróttavikunni á 433.is fyrir helgi og var meðal annars komið inn á landsliðið. Ísland vann 5-0 sigur á Aserbaísjan og tapaði naumlega fyrir Frökkum í síðasta landsliðsverkefni.
„Við sýndum klárlega framfarir. Við skorum til dæmis mark efir pressu á móti Frökkum en vissum líka hvenær við ættum að detta niður og leyfa þeim að stýra leiknum. Ég sé þvílíka bætingu,“ sagði Sævar.
Leikirnir voru liður í undankeppni HM og framundan á næstu vikum eru afar mikilvægir heimaleikir í sömu keppni, fyrst gegn Úkraínu og svo Frökkum.
„Það eru tveir heimaleikir núna, sem verður geðveikt. Þetta eru ekki margir leikir svo hver leikur er mjög mikilvægur. Þetta er ungt lið sem er að þroskast og læra inn á það sem Arnar og Davíð vilja. Stefnan er klárlega sett á HM,“ sagði Sævar.