Forráðamenn Crystal Palace hafa sætt sig við að Marc Guehi verði ekki áfram í herbúðum félagsins á næstu leiktíð. Sky Sports fjallar um málið.
Guehi var á leið til Liverpool á lokadegi félagaskiptagluggans á 35 milljónir punda þegar Palace hætti við að selja hann. Við það var leikmaðurinn ósáttur en hefur haldið áfram að spila og vera fyrirliði liðsins.
Samningur miðvarðarins rennur hins vegar út næsta sumar og Palace er að gefast upp á að reyna að fá hann til að framlengja. Fer hann því frítt næsta sumar, nema Palace reyni að fá einhvern pening fyrir hann í janúar.
Liverpool mun að öllum líkindum reyna að fá Guehi frítt næsta sumar. Þó hefur hann einnig verið orðaður við Real Madrid undanfarna daga.