Guðjón Pétur Lýðsson er að leggja skóna á hilluna eftir meira en 500 leiki á Íslandi, tvo Íslandsmeistaratitla, bikarmeistaratitil og fleira til. Guðjón fór yfir sviðið með Helga Fannari Sigurðssyni í Íþróttavikunni hér á 433.is.
Það vakti athygli þegar Guðjón gekk í raðir KA frá Val eftir leiktíðina 2018, en fór svo aftur og skrifaði undir hjá Breiðabliki áður en leiktíðin 2019 hófst. Hann tók því aðeins undirbúningstímabil á Akureyri.
„Þetta voru samt ógeðslega skemmtilegir mánuðir og ég elskaði að vera fyrir norðan. KA var bara ekki á þeim stað sem þeir eru á í dag. Það var ekki staðið við allt sem var verið að bjóða sem endaði með því að ég fékk að fara,“ sagði Guðjón í þættinum og var nánar spurður út í ástæðurnar.
„Það var ekki staðið við launagreiðslur. En ég kunni að meta allt þarna, þjálfarateymið var geggjað og leikmannahópurinn, mikið af efnilegum leikmönnum. Ég var alveg seldur á þetta verkefni og heldur betur búinn að koma mér fyrir á þessum fimm mánuðum með alls konar verkefnum.“
Guðjón var einmitt duglegur að taka að sér verkefni utan fótboltans á ferlinum. „Ég var búinn að kaupa einhverjar íbúðir þarna og var að gera þær upp. Ég var með hálft liðið í vinnu,“ sagði hann og hló.
Viðtalið í heild er í spilaranum og á helstu hlaðvarpsveitum.