KFR tryggði sér sigur í 5. deild karla á fimmtudag þegar liðið vann Álafoss í úrslitaleik deildarinnar.
Leikið var að Malbikstöðinni að Varmá og tók Álafoss forystuna strax eftir 10. mínútur þegar Alexander Aron Davorsson kom boltanum í netið. KFR var ekki lengi að svara fyrir sig og mínútu síðar jafnaði Bjarni Þorvaldsson leikinn.
Alexander var aftur á ferðinni á 29. mínútu og Álafoss leiddi 2-1 þegar flautað var til hálfleiks.
Helgi Valur Smárason jafnaði svo leikinn fyrir KFR á 67. mínútu og Þórður Kalman Friðriksson tryggði Rangæingum sigurinn með marki á 84. mínútu.