Fyrrverandi framherji Manchester United, Anthony Martial, gæti verið á leið í óvænt félagaskipti, en samningsviðræður eru sagðar tefjast vegna launakrafna Frakkans.
Martial var leystur undan samningi sínum hjá Manchester United í lok tímabilsins 2023-24 og gekk í kjölfarið til liðs við gríska stórliðið AEK Aþenu síðasta september. Félagið sem sagðist hafa boðið honum hæstu laun í sögu félagsins.
Hann lék alls 23 leiki á síðasta tímabili fyrir AEK, skoraði níu mörk og lagði upp tvö, en liðið endaði í fjórða sæti grísku úrvalsdeildarinnar og tryggði sér þar með sæti í Sambandsdeild UEFA.
Martial hefur hins vegar verið fjarri sviðsljósinu að undanförnu og hefur ekki verið í leikmannahópi AEK í síðustu sex leikjum liðsins.
Samkvæmt heimildum blaðamannsins César Luis Merlo hefur mexíkóska liðið Pumas áhuga á að fá Martial að láni fyrir lok glugga þar í landi, sem lokar á morgun. AEK er reiðubúið að lána leikmanninn án greiðslu, með því skilyrði að Pumas greiði eingöngu launin hans.
Það eru einmitt launakröfurnar sem reynast nú vera helsta hindrunin í viðræðunum. „AEK er tilbúið að lána hann til Pumas án þess að fá greiðslu fyrir, þeir þurfa aðeins að borga launin en laun Martial eru gífurleg,“ sagði Merlo.