Samir Xaud, forseti brasilíska knattspyrnusambandsins, lét hörð orð falla í garð dómara, skipuleggjenda og jafnvel boltastráka eftir að landslið Brasilíu lauk undankeppni HM í Suður-Ameríku með 1-0 tapi gegn Bólivíu.
Leikurinn fór fram í El Alto, í yfir 4.100 metra hæð yfir sjávarmáli, þar sem Brasilía sem þegar hafði tryggt sér sæti á HM—virtist örþreytt og náði ekki að svara marki heimamanna úr vítaspyrnu rétt fyrir hálfleik. Bruno Guimarães var dæmdur brotlegur, og Bólivía tryggði sér sigur og möguleika á sæti í umspili.
Xaud var afar ósáttur og sagði að úrslitin hafi ekki einungis verið afleiðing þreytu heldur skipulagðrar andstöðu:
„Það sem gerðist hér í kvöld er sorglegt. Við komum hingað til að spila fótbolta, en frá því við komum var þetta algjör andstæða,“ sagði Xaud við Globo.
„Við spiluðum gegn dómurum, gegn lögreglunni, og boltastrákum sem tóku boltana og köstuðu þeim aftur inn á völlinn. Þetta var hreinasta vitleysa.“
Þrátt fyrir að Carlo Ancelotti hafi sent inn á nöfn á borð við Marquinhos, Raphinha og undrabarið Estevão, tókst Brasilíu ekki að jafna metin. Farið er að bóla á pressu á þjálfarann sem tók við í sumar.
Þetta tap markar einnig versta árangur Brasilíu í undankeppni HM frá upphafi. Liðið lauk keppni í fimmta sæti með 28 stig úr 18 leikjum, í fyrsta skipti sem Brasilía nær ekki 30 stigum í undankeppni. Liðið vann aðeins 8 leiki, gerði 4 jafntefli og tapaði 6, sem gerir aðeins 51% sigurhlutfall.
Slakur árangur er verri en jafnvel undankeppni fyrir HM 2002, mót sem Brasilía vann þó að lokum.