Margir knattspyrnuáhugamenn voru reiðir og pirraðir þegar þeir fylgdust með landsleik Frakklands og Íslands í undankeppni HM í gær. Útsendingin frá Sýn fraus sí og æ framan af leik.
Á veraldarvefnum mátti sjá marga kvarta undan þessu og misstu meðal annars margir af marki Íslands þar sem Andri Lucas Guðjohnsen skoraði í tapinu gegn Frakklandi.
Sýn segir að bilun hafi komið upp í kerfinu hjá þeim. „Viðskiptavinir sem eru að horfa á Ísland – Frakkland gætu fundið fyrir truflunum þessa stundina vegna bilunar. Unnið er að lausn. Við biðjumst afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda,“ sagði á vef Sýnar í gærkvöldi.
Miklar umræður sköpuðust á síðunni Dr. Football – Leikmenn. Einn þeirra sem lagði orð í belg var Jón Bjarni Steinsson. „Ég er búinn að sjá svona 3 min af fyrri hálfleik – er að missa vitið – hvað er í gangi,“ skrifaði Jón.
„Ömurlegasta app sem ég hef notað , þetta er alltaf svona eftir að þessu var breytt í sýn, er að horfa í sjónvarpi símans,“ skrifar annar.
Margir benda á að þeir hafi lent ítrekað í veseni með þjónustuna hjá Sýn undanfarið eftir að enska úrvalsdeildin fór aftur á rásir þeirra. „Áá lendi i veseni með það í hvert skipti sem ég reyni að horfa á leiki á sýn sport,“ skrifar Ármann Örn.