Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá París
Desire Doue og Ousmane Dembele, tveir af öflugustu sóknarmönnum Frakka, verða frá næstu vikurnar og geta því ekki mætt Íslandi á þriðjudagskvöld.
Báðir eru á mála hjá Evrópumeisturum Paris Saint-Germain. Doue byrjaði leikinn gegn Úkraínu á föstudag en fór meiddur af velli í hálfleik, einmitt fyrir Dembele. Sá þurfti svo sjálfur að fara af velli vegna meiðsla í seinni hálfleiknum í 0-2 sigrinum.
Það er komið á hreint að Doue verður frá í þrjár til fjórar vikur. Dembele verður hins vegar frá í sex til átta vikur. Báðir hafa þeir yfirgefið franska hópinn fyrir leikinn gegn Íslendingum vegna þessa.
Kingsley Coman, sem gekk í raðir Al-Nassr í Sádi-Arabíu frá Bayern Munchen í sumar, hefur verið kallaður inn í hópinn í þeirra stað.
Leikur liðanna er liður í 2. umferð undankeppni HM. Frakkar unnu sem fyrr segir 0-2 sigur á Úkraínu í fyrstu umferð en Ísland vann afar sannfærandi 5-0 sigur gegn Aserbaísjan.