Ange Postecoglou gæti verið á leið aftur í þjálfun aðeins nokkrum mánuðum eftir að hann var látinn fara frá Tottenham, samkvæmt nýjustu fregnum .
Ástralinn leiddi Spurs til sigurs í Evrópudeildinni á móti Manchester United, en var engu að síður látinn fara í sumar. Thomas Frank, sem stýrði áður Brentford, tók við starfi hjá Tottenham í kjölfarið.
Nú er talið líklegt að Postecoglou taki við nýju starfi eftir landsleikjahléið.
Samkvæmt heimildum ítalska blaðamannsins Fabrizio Romano hefur Bayer Leverkusen áhuga á að ráða hann, en félagið sagði nýverið upp samningi við Erik ten Hag eftir aðeins tvo leiki í þýsku úrvalsdeildinni.
Ten Hag, sem áður stýrði Manchester United, tapaði fyrsta leik sínum á heimavelli og kastaði síðan frá sér tveggja marka forskoti í jafntefli í öðrum leiknum sem varð til þess að Leverkusen leitaði að nýjum þjálfara.
Postecoglou virðist þó hafa fleiri valkosti. Fenerbahce í Tyrklandi er einnig sagt hafa áhuga eftir að Jose Mourinho var rekinn úr starfi þar.