Geir Þorsteinsson fyrrum formaður KSÍ stakk niður penna eftir að Birkir Bjarnason, leikjahæsti leikmaður í sögu Íslands ákvað að leggja skóna á hilluna.
Birkir hefur átt magnaðan feril og var lengi vel algjör lykilmaður í íslenska landsliðinu, hann lék 113 A-landsleiki á ferlinum og er sá leikjahæsti í sögu landsliðsins.
Birkir er 37 ára gamall en hann lék síðustu tvö ár með Brescia á Ítalíu.
„Góður árangur fæst með frábærum leikmönnum. Sá í fréttum í morgun að Birkir Bjarnason væri hættur að leika fótbolta sem atvinnumaður. Um leið er ljóst að hann leikur ekki fleiri leiki fyrir Ísland en Birkir hefur leikið fleiri landsleiki en nokkur annar, alls 113.“ skrifar Geir.
Ferill Birkis var afar glæsilegur en hann lék á Englandi, í Sviss, á Ítalíu, í Tyrklandi og einnig í Katar.
Geir segir að Birkir hafi látið lítið fyrir sér fara en alltaf verið fyrstur á blað.
„Seigla, dugnaður og gæði einkenndu Birki. Hann var tæknilega góður leikmaður og var maður liðsheildarinnar. Hæglátur og baráttuglaður, var fyrsti kostur allra þjálfara enda valinn oftast til að vera fulltrúi Íslands innan vallar. Það eitt og sér er glæsilegur vitnisburður.“
Birkir var fastamaður í byrjunarliði Íslands á EM 2016 og HM 2018.
Birkir var ekki valin í landsliðið síðustu árin á ferlinum og segir Geir. „Birkir hefur vissulega skilið eftir sig skarð í landsliðinu sem virðist vandfyllt. Það gera bara þeir bestu. Takk Birkir, þú varst ávallt til staðar fyrir Ísland þegar til þín var leitað. Þú átt heiður skilinn fyrir framlag þitt til íslensks fótbolta.“
https://www.dv.is/wp-content/uploads/2019/01/Geir-Þorsteinsson-4.jpg