Liverpool ætlar sér að landa bæði Marc Guehi og Alexander Isak áður en félagaskiptaglugganum verður skellt í lás í kvöld.
Englandsmeistararnir hafa verið á eftir Isak í allt sumar, en framherjinn hóf stríð við félag sitt, Newcastle, fyrir nokkrum vikum til að reyna að koma skiptunum í gegn.
Í gærkvöldi birtust loks fréttir þess efnis að Liverpool væri að landa Svíanum. Verður kaupverið um 125-130 milljónir punda.
Guehi er fyrirliði Crystal Palace en verður samningslaus þar eftir eitt ár. Félagið er sagt opið fyrir að selja hann fyrir rétt verð en vill helst annan miðvörð í staðinn.
Það er líklegt að Joe Gomez fari frá Liverpool ef það tekst að fá Guehi inn. AC Milan er þar líklegasti áfangastaðurinn.
Þess má geta að félagaskiptaglugganum verður skellt í lás klukkan 18 í kvöld að íslenskum tíma. Er það fjórum tímum fyrr en vanalega. Þetta er gert til að búa til heilbrigðara starfsumhverfi og vinnutíma fyrir starfsfólk knattspyrnufélaga.