Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, er allt annað en sáttur við gestrisni Stjörnunnar, öllu heldur skort á henni, fyrir heimaleiki sína. Liðin mættust í Garðabæ í Bestu deild karla í dag.
Stjarnan vann 3-2 sigur en eftir leik gagnrýndi Hallgrímur það hvernig Stjörnumenn taka á móti gestaliðum og að þeir skili leikskýrslum seint.
„Mig langar samt að benda á að mér finnst það til skammar hvernig Stjarnan tekur á móti liðum hér á Samsung-vellinum. Leikskýrslan kemur trekk í trekk 45 mínútum fyrir leik á meðan við skilum skýrslunni af okkur klukkutíma fyrir leik.
Þeir vökva svo bara völlinn öðru megin og hundbleyta varamannaskýlið okkar. Þetta er leiðinda mind games sem er ekki mikill bragur af. Mér finnst að KSÍ eigi að taka á þessu og þetta er Stjörnunnni ekki til sóma,“ sagði Hallgrímur til að mynda við Vísi/Sýn.
KA er í níunda sæti deildarinnar með 26 stig, 5 stigum fyrir ofan fallsvæðið. Stjarnan er með 37 stig og komið inn í toppbaráttuna af krafti.