Spilamennska Stjörnumanna heillaði ekki marga þrátt fyrir sigur á KR í Bestu deild karla í byrjun vikunnar. Þar á meðal var Mikael Nikulásson sparkspekingur.
Stjarnan vann leikinn 1-2 og voru KR-ingar afar svekktir með að hafa ekki fengið neitt úr leiknum. Vesturbæingar eru áfram í fallbaráttu á meðan Garðbæðingar halda í við toppliðin.
„Ég fór beint upp á slysó og fékk hálskraga eftir að hafa horft á þetta Stjörnulið. Ég hef aldrei séð svona. Það er alltaf verið að tala um að við séum að bæta fótboltann. Ég á örugglega 100 leiki á þessum velli sem var verið að spila á en þá var alltaf reynt að spila fótbolta. En svo var allt svo ömurlegt í gamla daga.
Ég hef aldrei séð fótbolta eins og hjá Stjörnunni í þessum leik. Að þetta Stjörnulið sé fyrir ofan KR er hneyksli fyrir fótboltann en svona er þetta,“ sagði Mikael um leikinn í Þungavigtinni.
Mikael var hrifinn af spilamennsku sinna manna í KR í leiknum og er hann bjartsýnn fyrir framhaldinu með Óskar Hrafn Þorvaldsson í brúnni. Hann segir ótrúlegt að liðið sé með 11 stigum minna en Stjarnan. „Það er lögreglumál, miðað við spilamennskuna.“
Stjarnan bætti við sig fjórum útlendingum á miðju tímabili, þar á meðal Steven Caulker, fyrrum leikmanni Tottenham og Liverpool. Liðið virðist ætla að láta sig dreyma um Íslandsmeistaratitil í haust. „Það er ekkert project í gangi hjá Stjörnunni, það er bara bombað fram,“ sagði Mikael hins vegar.