Það eru vangaveltur um hvort Ruben Amorim hafi óbeint verið að segjast hafa tapað trausti leikmanna og að tími hans sem stjóri Manchester United líði senn undir lok eftir viðtal sem hann fór í eftir niðurlægjandi tap gegn D-deildarliði Grimsby í gær.
Grimsby henti stórliðinu úr leik í 2. umferð deildabikarsins með dramatískum sigri í vítaspyrnukeppni. Þetta kemur í kjölfar þess að United hefur fengið eitt stig og aðeins skorað eitt mark í fyrstu tveimur leikjum ensku úrvalsdeildarinnar.
„Ég tel að betra liðið hafi unnið, eina liðið sem var á vellinum. Mér finnst mínir leikmennmenn hafa talað hátt og skýrt í dag. Í mínum huga er alveg ljóst hvað gerðist,“ sagði Amorim eftir leik og var beðinn um að útskýra þetta nánar.
„Hvernig við byrjum leikinn án ákefðar, engar hugmyndir um slíkt voru til staðar. Þannig tel ég þá hafa talað hátt og skýrt.“
Það er enn loðið hvað nákvæmlega Portúgalinn meinti en hann virðist allavega allt annað en sáttur með leikmenn sína. Sem fyrr segir eru kenningar um að þarna hafi hann átt við að hann hafi tapað klefanum og að leikmenn hafi jafnvel kastað honum undir rútuna í gær.