Það var aldrei vafi í huga Arnars Gunnlaugssonar landsliðsþjálfari að velja Aron Einar Gunnarsson, fyrrum landsliðsfyrirliða til margra ára, í hópinn fyrir komandi leiki.
Ísland mætir Aserbaídsjan og Frakklandi í fyrstu leikjum undankeppni HM í byrjun næsta mánaðar. Var Aron Einar á sínum stað í hópnum sem Arnar opinberaði í gær.
„Við töluðum um það síðast að það væri frábært ef hann fengi fleiri leiki til að vera fit. Það sem gerist er að hann er búinn að vera frábær á undirbúningstímabilinu, spila allar mínútur,“ segir Arnar við 433.is.
Aron er á mála hjá Al-Gharafa í Katar og hefur verið að gera vel þar undanfarið. Hann getur þó ekki tekið þátt í leiknum gegn Aserbaídsjan en verður klár gegn Frökkum.
„Ég hef alltaf verið mjög stöðugur í mínum málflutningi varðandi hann. Ef hann er fit er hann mikilvægur fyrir okkar landslið. Hann er í banni í fyrsta leik en á móti Frökkum á þeirra heimavelli, þar mun hans reynsla vera ómetanleg.“
Ítarlegt viðtal við Arnar um nýjasta landsliðshópinn og komandi leiki er í spilaranum.