Ruben Dias, varnarmaður Manchester City, var nokkuð reiður eftir leik liðsins við Tottenham í gær.
City tapaði óvænt 0-2 á heimavelli gegn Tottenham en liðið fékk á sig ansi klaufalegt mark undir lok fyrri hálfleiksins sem kom gestunum í 2-0.
Dias vildi ekki kenna markverðinum James Trafford um en hann gerði sig sekan um ansi slæm mistök sem kostaði mark.
,,Seinna markið var óheppni, þetta má samt ekki gerast,“ sagði Dias eftir leikinn.
,,Við vorum að eltast við boltann en það var mikið sem við gátum gert betur. Það var ekki allt gott í fyrsta leiknum og það var ekki allt slæmt í þessum leik en við þurfum að hefja vinnuna á ný.“
,,Tottenham er lið sem getur verið mjög hættulegt og þeir byrjuðu mjög vel. Við náðum ekki að bregðast við eins vel og mögulegt var.“