Óvissa ríkir um framtíð Marc Guehi, fyrirliða Crystal Palace, þar sem formaður félagsins, Steve Parish, hefur gefið í skyn að hann gæti yfirgefið félagið áður en glugginn lokar. Þrátt fyrir að knattspyrnustjóri liðsins, Oliver Glasner, sé staðráðinn í að halda honum.
Í kjölfar sölunnar á sóknarmanninum Eberechi Eze til Arsenal á fimmtudag, opnaði Parish á möguleikann á að Guehi gæti verið næstur út. „Ef Marc vill skrifa undir nýjan samning, þá getur hann verið áfram. Ef ekki, þá þurfum við að skoða málið. Þetta er erfið staða,“ sagði Parish eftir sigur Palace á Fredrikstad í Sambandsdeildinni. Síðari leikurinn er eftir.
Samningur Guehi rennur út næsta sumar og því er þetta síðasti séns Palace að selja hann. „Að missa leikmenn á frjálsri sölu er ekki góð staða, ég ætla ekki að segja neitt annað. Þetta er eitthvað sem við verðum að skoða á næstu ellefu dögum.“
Á hinn bóginn tók Glasner fastari afstöðu og sagði að það væri óásættanlegt að missa Guehi að svo stöddu, sérstaklega í ljósi Evrópuleiksins fram undan. „Ég veit bara að ef Marc fer og er ekki tiltækur gegn Fredrikstad, þá verðum við í miklum vandræðum,“ sagði Glasner á blaðamannafundi eftir leikinn.
„Við getum ekki skráð nýja leikmenn í hópinn fyrir Sambandsdeildina milli fyrri og seinni viðureignarinnar, þannig að frá mínu sjónarhorni verður hann að vera áfram.“