Gianluigi Donnarumma, markvörður Paris Saint-Germain og landsliðsmaður Ítalíu, æfir þessa dagana einn í Frakklandi og fær ekki að vera með aðalliði PSG á meðan beðið er eftir úrlausn um framtíð hans.
Fjöldi félaga hefur sýnt áhuga og skoðað möguleika á kaupum, en samkvæmt heimildum Sky Sports News hafa enn engin formleg tilboð borist, hvorki til PSG né umboðsmanna leikmannsins. Glugginn lokar eftir tíu daga og því lítið svigrúm eftir til að ganga frá mögulegum samningi.
Einn heimildarmaður segir Donnarumma líta svo á að hann sé að verða „verðlagður út af markaðnum“, þar sem PSG vill fá um 40 milljónir evra fyrir leikmanninn sem er að hefja síðasta árið á samningi sínum við félagið.
Líklegt er talið að verðmiðinn lækki eftir því sem nær dregur lokun gluggans, en áhugasamir aðilar þurfa jafnframt að leysa sín eigin mál í markvarðarstöðunni áður en hægt verður að bregðast við.
Donnarumma, sem kom til PSG frá AC Milan árið 2021, hefur verið aðalmarkvörður félagsins síðustu tímabil en nú vill PSG hann burt.