Það er klofningur á meðal leikmanna Newcastle er varðar hvort þeir styðji við bakið á Alexander Isak eða ekki. Þetta kemur fram í Daily Mail.
Framherjinn er að reyna að komast til Liverpool og neitar að æfa með Newcastle á meðan. Skaut hann hressilega á félagið í færslu í gær og segir hann það hafa brotið loforð.
Meira
Isak varpar sprengju – Veður í Newcastle í yfirlýsingu
Newcastle svaraði færslunni með yfirlýsingu, þar sem fram kom að félagið hafi aldrei lofað Isak að hann mætti fara í sumar.
Daily Mail segir nú að einhverjir leikmenn styðji við bakið á Isak en aðrir ekki. Félagið sagði í yfirlýsingunni að hann yrði boðinn velkominn til baka á æfingar þegar hann er tilbúinn.
Þá er athygli vakin á myndbirtingu Bruno Guimaraes, leikmanni Newcastle, skömmu eftir að Isak birti sína færslu. Birti hann mynd af sér í treyju Newcastle, sem er talið skot á Svíann.
Liverpool bauð 110 milljónir punda í Isak á dögunum en því var hafnað. Liðin mætast um helgina og má búast við öðru tilboði frá Liverpool eftir þann leik.