Arsenal vann sigur á Manchester United í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnnar í gær og heldur góður árangur Mikel Arteta gegn stóru liðunum áfram.
United spilaði vel í leiknum en það dugði ekki til gegn Skyttunum, sem unnu seiglusigur á Old Trafford, 0-1
United hefur ekki tekist að vinna Arsenal í ensku úrvalsdeildinni síðan í september 2022, en lærisveinum Arteta hefur raunar gengið afar vel gegn hinum stóru sex liðunum svokölluðu, Chelsea, Tottenham, Manchester City, Manchester United og Liverpool, undanfarin ár.
Síðasta tap Arsenal gegn einu af þessum liðum kom í apríl 2023 gegn City. Leikurinn fór 4-1 og fór langt með að gera út um titilvonir Arsenal það vorið.
Þessi árangur Arsenal gegn stórliðunum undanfarin tímabil hefur þó aðeins skilað öðru sætinu þrjú ár í röð. Liðið vonast til að gera einu sæti betur á þessari leiktíð.