Margir stuðningsmenn Breiðabliks eru orðnir pirraðir á gengi liðsins undanfarið og létu einhverjir í sér heyra á samfélagsmiðlum eftir tap í gær.
Breiðablik tapaði 4-5 fyrir FH í mögnuðum leik og mistókst að saxa á forskot toppliðs Bestu deildarinnar, Vals, sem er fimm stigum á undan Íslandsmeisturunum.
Breiðablik vann síðast leik fyrir mánuði síðan, gegn Vestra, og hefur nú ekki unnið í deild og Evrópukeppni í átta leikjum í röð. Liðið fær þó tækifæri til að fara í Sambandsdeildina, er komið í umspil um sæti þar eftir tap í síðustu tveimur einvígum í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni.
Það breytir því ekki að margir stuðningsmenn vilja sjá gengi liðsins batna og það hratt.
„Gummi Magg er bara í grænni treyju þarna inn á og við erum að láta FH maukríða okkur. Shocking Breiðabliks lið sem er svo identity laust að við erum farnir í þriggja manna vörn, með ömurlegum árangri. Þetta er mun verra en 2023 af því þetta er hundleiðinlegt áhorfs,“ skrifaði Freyr Snorrason, fyrrum frambjóðandi Samfylkingarinnar og harður Bliki, á X í gær.
Eysteinn Þorri Björgvinsson, leikmaður venslaliðs Breiðabliks, Augnabliks, tók undir þetta. „Djöfull saknar maður Sex Drugs and rock & roll boltans. Þetta er ekki hægt hvað þetta er leiðinlegt.“
Helgi Freyr Rúnarsson tók einnig til máls. „Féllum a.m.k. á eigin sverð 2023… núna erum við bara að veltast um í drullupolli… sem við bjuggum til sjálfir.“
Gummi Magg er bara í grænni treyju þarna inn á og við erum að láta FH maukríða okkur. Shocking Breiðabliks lið sem er svo identity laust að við erum farnir í þriggja manna vörn, með ömurlegum árangri.
Þetta er mun verra en 2023 af því þetta er hundleiðinlegt áhorfs.— Freyr S.N. (@fs3786) August 17, 2025