Íslenska lögreglan gerði ekki sérstakar ráðstafanir fyrir komu stuðningsmanna Bröndby til landsins í gær, en liðið mætti Víkingi í Fossvogi. Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, furðar sig mjög á þessu.
Liðin mættust í fyrri leik sínum í undankeppni Sambandsdeildarinnar og vann Víkingur ansi óvæntan 3-0 sigur. Tapsárir stuðningsmenn Bröndby urðu trítilóðir, réðust á stuðningsmenn Víkings, ollu skemmdum á vellinum og meira til.
Meira
Myndband: Danskar bullur gengu berserksgang í Reykjavík – Lúskruðu á íslenskum áhorfendum
„Hlustaði í morgun á lögreglumann í útvarpinu segja að menn hefðu ekki verið með sérstakan viðbúnað vegna heimsóknar knattspyrnuliðsins Brøndby í Víkina. Magnað og greinilegt að menn hafa ekki lesið heima. Ef einhvern tímann er rétt að vera með viðbúnað þá er það akkúrat þegar Brøndby kemur í heimsókn,“ skrifar Grímur á Facebook-síðu sína.
„Frá 1994 hafa Brøndby bullurnar staðið fyrir endalausum uppákomum og vandræðum og valdið bæði skaða á fólki og umhverfi. Það eru eiginlega alltaf vandræði þegar liðið keppir í Evrópu og jafnvel í vináttuleikjum.“
Grímur nefnir svo dæmi um hegðun stuðningsmanna Bröndby í gegnum tíðina. Til að mynda fyrsta skiptið sem óeirðir brutust út í Kaupmannahöfn í kringum knattspyrnuleik fyrir leik Bröndby gegn erkifjendunum í FC Kaupmannahöfn árið 1994. Þá voru verslanir, bílar og fleira eyðilagt í borginni. Hörð slagsmál brutust þá út víða í borginni.
Dæmin um ömurlega hegðun stuðningsmanna Bröndby eru óteljandi, eins og Grímur bendir á, og hafa þeir stöðugt verið til vandræða á ferðalögum sínum í útileiki í Evrópukeppnum. Grímur bendir á þegar þeir réðust á stuðningsmenn Rangers á leik liðsins í Evrópudeildinni.
Hér að neðan má sjá færslu Gríms í heild. Þar birtir hann einnig skjáskot af fréttum um skrílslæti meðal stuðningsmanna Bröndby.